Árni Tómasson segir sig úr skilanefnd Glitnis
Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis hefur ákveðið að segja sig úr skilanefndinni frá og með 1. október næst komandi. Til að tryggja sem mesta samfellu í starfsemi Glitnis hefur hann fallist á þá ósk slitastjórnar að sitja áfram í stjórn Íslandsbanka og að aðstoða við söluferli á eignarhlut í bankanum auk þess að gegna tilfallandi störfum sem slitastjórn kann að óska eftir vegna fyrri starfa hans fyrir Glitni. Í orðsendingu sem Árni Tómasson sendi samstarfsmönnum sínum hjá Glitni í dag segir hann meðal annars:
„Alþingi samþykkti í júní 2011 breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki þar sem ákveðið var að verkefni skilanefnda falli til slitastjórna ekki síðar en 1. janúar 2012 og að skilanefndin ljúki þar með störfum. Frá því að þetta var ákveðið hefur verið unnið að því að færa verkefni frá skilanefnd yfir til slitastjórnar, með þeim hætti að sem minnst truflun verði á starfsemi Glitnis. Þar sem tilflutningur verkefna frá skilanefnd til slitastjórnar Glitnis hefur gengið vel tel ég nú svigrúm til að fækka fulltrúum í skilanefnd Glitnis og flýta þannig því ferli sem Alþingi hefur ákveðið með fyrrgreindri breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Því hef ég ákveðið að segja mig úr skilanefnd Glitnis frá og með 1. október nk.“
Vegna þeirrar ákvörðunar Árna Tómassonar að hverfa nú úr skilanefnd Glitnis vill slitastjórn bankans nota þetta tækifæri til að þakka honum vel unnin störf í þágu Glitnis á miklum umbrotatímum undanfarin þrjú ár.
Steinunn Guðbjartsdóttir
formaður slitastjórnar Glitnis